Úr sveit í borg - Viðtal við Árna Gunnar

Sett inn 1st Nov 2017 20:58:12 í Almennt

 

Fréttaritari VIR ræddi á dögunum við Akureyringinn Árna Gunnar Ellertsson sem er á öðru ári í tölvuverkfræði. Árni er mikill sveitastrákur og fékk fréttaritari að forvitnast aðeins um lífið Árna hér í borginni.

 

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég eiginlega bara neyddist til þess að flytja suður enda ekkert svipað nám í boði í háskólabænum Akureyri. Ég hafði einu sinni áður komið til Reykjavíkur og það var æðislegt og svo þegar ég fór að skoða skólann leist mér bara ágætlega á þetta þó það sé að sjálfsögðu erfitt fara frá Akureyri og fjölskyldunni.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Akureyri?
Íbúðamálin hér eru erfið og flókin. Ég bjó fyrst um sinn upp í Breiðholti og það var mjög fínt en eftir að ég byrjaði í skólanum vöruðu kennararnir mig við þessu hverfi svo ég fór að leita að öðru. Ég er núna loksins komin með para íbúð á stúdentagörðunum við Eggertsgötu sem er virkilega kósý og skemmtileg og ég bý þar með unnustunni minni Díönu. En þetta er töluvert dýrara en heima á Akureyri það verður að segjast alveg eins og er.

 

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Akureyri?

Nei og já mynd ég segja. Það eru nátturulega sömu matvörubúðir hér svo það er ekkert rosalega mikill munur á því en þegar maður fer að stelast í KFC í tíma og ótíma þá fer það fljótt að telja! Svo er líka rosalega dýrt að djamma í bænum þannig við Díana reynum að drekka sem mest heima.

 

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Það er auðvitað Hallgrímskirkja og miðbærinn og allt það en ég hef samt ekkert skoðað þessa staði.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Það er erfitt að segja hvort fáir viti af einhverjum stöðum en ég hef fundið nokkra skemmtilega staði sem ég hafði ekki hugmynd um fyrr en ég flutti hingað. Til dæmis er kaffihús hérna sem heitir Kaffitár sem mér finnst æði en það er svolítið svipað og bláa kannan okkar heima á Akureyri. Einnig finnst mér frábært að fá mér einn eða tvo Bjóra á stað sem heitir American bar en það er mjög líkt Amor okkar heima.

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Mjög leiðilegt að segja frá því en ég kann varla tungumálið og hef ekki verið nógu duglegur að æfa mig. Ég hef einungis lært aðalfrasana eins og vá hvað ég er með miklar harðsperrur (strengir), ég er í gati í næsta tíma (eyðu), en ég þarf að fara hirða upp um mig buxurnar og læra eitthvað meira.

Varstu var við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri Akureyrsku?

Ég fékk ekkert rosalegt menningarsjokk nema kanski það að það eru varla neinar lúgur í Reykjavík? Ég hef enn ekkert komist að því hvað þetta fólk borðar eftir fimmtudags.

 

Helstu kostir borgarinnar?

Mér finnst gott hvað það er stutt í flugvöllinn!

 

Helstu gallar borgarinnar?
Þeir eru nokkrir en örugglega eitthvað sem þú getur fundið í flestum stórborgum. T.d. betlarar, vasaþjófar og aðrir glæpir.

Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Nei eiginlega ekki. Við Díana mín ætluðum alltaf bara að flytja hingað tímabundið og erum við eiginlega strax orðin spennt að komast heim á Akureyrina.